Reggio Emilia

Hugmyndafræði Reggio Emilia er kennd við borgina Reggio Emilia á Norður Ítalíu. Stuttu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk, ákváðu nokkrar mæður þar í borg að byggja leikskóla á húsarústum. Þetta vildu þær gera fyrir börn sín, en ekki síður fyrir lýðræðið sem var þeim mjög hugleikið. Börnin áttu að þroska hæfileika sína, njóta virðingar og það átti að hlusta á þau. Strax í upphafi var kennslan og þekkingarleit barnanna það mikilvægasta, ekki pössunin.
Sálfræðingurinn og kennarinn Loris Malaguzzi frétti af þessu. Hann heillaðist af eldmóði þeirra og ákvað að taka þátt í þessu ævintýri. Í 25 ár gegndi Malaguzzi síðan embætti yfirmanns leikskólamála í Reggio. Á þeim tíma mótuðu hann og samstarfsmenn hans þessa stefnu. Hann sagði að börn hefðu „100 mál" og ætti að hvetja börnin til að nota öll sín skilningarvit og þá hæfileika sem þau búa yfir.Til þess að börn geti tjáð sig á einhverjum af „100 málum" sínum þurfa þau verkefni til þess að vinna úr og festa í minni reynslu sína.

Malaguzzi sagði að leikskólinn ætti að vera lifandi staður í stöðugri þróun, þar sem börn og fullorðnir gætu verið í góðu sambandi hvert við annað.Til að þróa gagnrýna hugsun hjá börnum þarf að kenna þeim að skilgreina hluti, með því að sjá þá innan frá og frá öllum hliðum.
Veganesti barnanna út í lífið er byggt á reynslu þeirra sjálfra. Það þarf að hlúa að sköpunargáfunni, hún er ekki eitthvað sem maður fær fyrirhafnarlaust upp í hendurnar. Hana öðlast maður með vinnu sinni, við að athuga umheiminn, ræða vandamálin og vinna úr þeim. Mikil áhersla er lögð á að hlustað sé á barnið af athygli, bæði af börnum og fullorðnum.
Frá frumbernsku hefur barnið í sér listina til að kanna, það gleðst oft yfir því óvænta sem kemur í ljós í  könnunum þess. Börnin hafa mikla þörf fyrir að vera sjálfstæð, því þurfa þau að fá tækifæri til að kanna, prufa, misheppnast og reyna aftur. Þau þurfa að fá að uppgötva hvernig skynsemin, ímyndun og hugsun vinna saman. Börnin eru hvött til þess að nota sín eigin mál: forvitni, ímyndunarafl, sköpunargleði, skynjun og hugsun og að þau fái að njóta þess að uppgötva veröldina á eigin forsendum í gegnum myndlist, leikræna tjáningu, tónlist,
hreyfingu og dans.

Galdurinn felst í því að gefa börnunum tækifæri og tíma til að "skynja og uppgötva". Í starfinu með börnunum eru notaðar opnar spurningar, "hvað, hvernig og hvers vegna". Lögð er áhersla á lýðræðisleg vinnubrögð og takmarkalaust traust og virðingu fyrir börnunum og getu þeirra til að afla sér reynslu og þekkingar. Nauðsynlegt er að hafa trú og virðingu á getu barnanna til að afla sér reynslu og þekkingar á þeirra forsendum en ekki væntingum fullorðinna. Það er talað um að kennararnir í Reggio Emilia leikskólum séu: börn - kennarar - umhverfi.

Eðlilegt er að menning og umhverfi hvers skóla birtist innan veggja skólans.

Hulduheimar eru í samstarfi við 3 aðra Reggioskóla og köllum við okkur HEBA skólana. Þ.e. Hulduheimar, Engjaborg, Brekkuborg og Austurborg.